Vatn eru mannréttindi

Alþjóðlegi vatnsdagurinn er í dag en á þessum degi er athygli vakin á þeim gífurlega fjölda fólks sem ekki hefur aðgang að hreinu neysluvatni. Í dag hafa 2,2 milljarðar manns ekki aðgang að hreinu og öruggu vatni, sem er mikið áhyggjuefni enda lágmarks mannréttindi og lífsnauðsynlegt.

Við hjá CLF vorum svo heppin að hljóta styrk frá Utanríkisráðuneyti Íslands árið 2017 til þess að grafa fyrir brunni og hefur hann, síðan þá, auðveldað nemendum, starfsfólki og nágrönnum lífið töluvert. Hreint og öruggt vatn fæst nú á skólalóðinni en áður þurfti að ganga langa vegalengd daglega til að sækja vatn. Við skulum ekki taka vatni sem sjálfsögðum hlut, hvorki í dag né aðra daga.

Alþjóðlegur baráttudagur kvenna 2021

8. mars var alþjóðlegur baráttudagur kvenna. Að því tilefni sem og tilslökunum á Covid takmörkum þá slógum við upp smá veislu við skólann! Þetta hafa svo sannarlega verið krefjandi mánuðir og það er gott að líta fram á við til bjartari tíma. CLF bauð stelpum úr 6 nágrannaskólum á viðburðinn en það eru þeir skólar sem taka þátt í tíðarheilsuverkefninu okkar styrkt af Rótarý. Hver stúlka sem kom á viðburðinn fékk pakka með tveimur margnota dömubindum auk þess að allir gestirnir fengu fjölnota grímu saumaða af stúlkunum í verkmenntaskóla CLF. Boðið var uppá fræðslu um blæðingar og hvernig eigi að nota bindin sem þær fengu að gjöf, og stúlkurnar fengu tækifæri á að deila sinni reynslu. Heiðursgestur var Mary Namuli frá skólayfirvöldum Mukono héraðs. Þetta var frábær dagur í alla staði.

„There are two powers in the world: one is the sword and the other is the pen. There is a third power stronger than both, that of women.“ -Malala Yousafzai