Jólamarkaður CLF í Kolaportinu

Verið velkomin á Jólamarkað CLF á Íslandi en við verðum í Kolaportinu helgina 15. og 16. desember með fallegt úganskt handverk til styrktar félaginu. Það sem er til sölu eru meðal annars fallegar og litríkar töskur, svuntur, salatskeiðar, hitaplattar, skartgripir og gjafabréf (gjafir sem gefa), en allur ágóði rennur óskiptur til rekstrar verkmenntaskóla CLF fyrir bágstaddar stúlkur í Úganda. Tilvaldar gjafir í jólapakkann, sem bæði gleðja og styðja gott málefni.

Finna má viðburðinn hér á Facebook.

 

Alþjóðlegur dagur sjálfboðaliða

Í dag, 5. desember, er alþjóðlegur dagur sjálfboðaliða. Þess má geta að allt starf CLF á Íslandi er unnið í sjálfboðavinnu af fólki sem á það sameiginlegt að hafa brennandi áhuga á jafnréttismálum, þróunarmálum og menntamálum, eða öllu því sem CLF stendur fyrir.

CLF í Úganda fær einnig reglulega til sín sjálfboðaliða frá Íslandi sem unnið hafa frábært starf í þágu skólans. Vilt þú gerast sjálfboðaliði, láta gott af þér leiða og öðlast dýrmæta reynslu? Þá máttu endilega senda okkur póst á clf@clf.is.

Kynheilsa og álfabikar

Samtökin WoMena, sem sérhæfa sig í kynheilsu kvenna sérstaklega í tengslum við blæðingar, heimsóttu skólann okkar í annað sinn í vikunni. Var bæði nemendum og konum í nágrenninu boðin fræðsla. Í þetta sinn komu WoMena færandi hendi með álfabikar handa þátttakendum sem munu að öllum líkindum nýtast þeim í 10 ár, en álfabikarinn er margnota bikar úr sílíkoni sem tekur tíðarblóði og er notaður í stað dömubinda og tappa. Það er munur að þurfa ekki að hafa áhyggjur af tíma mánaðarins næstu 10 árin! Takk WoMena fyrir allt, og takk sendiráð Íslands í Kampala fyrir stuðninginn.

Takk fyrir stuðninginn!

Við viljum þakka ykkur öllum kærlega fyrir stuðninginn í Reykjavíkurmaraþoninu, hann var ómetanlegur! Sérstakar þakkir til þeirra sem hlupu fyrir samtökin en það voru Tómas Ingi Adolfsson, Renata Sigurbergsdóttir, Ásrún Birgisdóttir, Þorbjörg Halldórsdóttir, Ármann Halldórsson, Halldóra Hrólfsdóttir og Margrét Geirsdóttir. Án ykkar hefði áheitasöfnunin ekki heppnast eins vel og hún gerði en það söfnuðust 326.500 kr! Öll áheitin munu öll renna óskipt til reksturs verkmenntaskólans í Úganda en við munum að sjálfsögðu leyfa ykkur að fylgjast áfram með starfi verkmenntaskólans hér á heimasíðunni, á Instagram og á Facebook.

Takk enn og aftur fyrir stuðninginn, þið eruð frábær.

Menntun stúlkna vinnur gegn barnahjónaböndum

Friðsemd, formaður CLF á Íslandi, og Tómas, gjaldkeri og varaformaður, skrifuðu grein um fjölbreytt gildi menntunarinnar sem verkmenntaskóli CLF veitir:

„Að útvega stúlkum þekk­ingu og skapa þeim færni sem nýt­ist þeim í líf­inu er eitt það helsta sem hægt er að gera til þess að draga úr líkum á því að þær gift­ist ung­ar. Með því að sýna fram á gildi mennt­unar má svo smám saman breyta þeim við­horfum sem oft eru ríkj­andi gagn­vart menntun stúlkna.“

Greinina má lesa í heild sinni hér.

Tómas reimar á sig hlaupaskóna

Tómas, gjaldkeri og varaformaður CLF á Íslandi, hleypur að sjálfsögðu fyrir okkur í Reykjavíkurmaraþoninu líkt og kemur fram á Vísi: ,,Við ætlum okkur að efla starfsemi skólans enn frekar og fá til dæmis fleiri góða kennara og bæta inn verkefnum, eins og fatasaum, hænsnarækt og kertagerð, en þau verkefni gera skólanum og nemendum hans kleift að selja afraksturinn og efla þar með sjálfstraust stúlknanna og bæta hag þeirra til framtíðar“

Hægt er að heita á hlauparana hér.

Takk WoMena!

Í síðustu viku fékk Candle Light verkmenntaskólinn heimsókn frá samtökunum WoMena sem buðu upp á kynfræðslu og fræðslu um blæðingar fyrir nemendurna. Þar lærðu stelpurnar meðal annars að þekkja líkama sinn, tíðarhringinn, hvernig er best að takast á við tíðarverki og hvernig á að nota vörur eins og dömubindi. Einnig komu samtökin færandi hendi með fjölnota dömubindi fyrir nemendur og kennara, og birgðir á smokkum sem verður dreift í nágrenni við skólann. Nauðsynjavörur líkt og dömubindi eru því miður munaður sem ekki allir hafa efni á í Úganda, sem veldur því að margar stelpur missa úr skóla þegar þær eru á blæðingum. Bindin munu endast stelpunum í a.m.k. eitt ár, út skólagönguna. Við þökkum WoMena kærlega fyrir okkur, sem og Sendiráði Íslands í Kampala fyrir stuðninginn við heimsóknina!

Fimm hlauparar söfnuðu 170.000 kr.

Fimm vaskir hlauparar söfnuðu 170.000 kr. fyrir CLF á Íslandi í Reykjavíkurmaraþoninu.  Hlaupararnir voru þau Konráð S. Guðjónsson, Tómas Ingi Adolfsson, Þorbjörg Halldórsdóttir, Halldóra Hrólfsdóttir og Elín Gunnlaugsdóttir.

59 sáu sér fært um að heita á hlauparana okkar og kunnum við þeim góðar þakkir fyrir.  Takk Helga, Hulda, Abel, Bjössi, Pétur, Jónína, Halla, Jói, Sigga, Mjöll, Jói, amma og afi í Hamrahlíð, Gunna Stína, Hannes, Steina, Raggi, Sigríður Hrólfsdóttir, Tinna, Halldóra, Gestur, Margret, Freysi, amma og afi í Vesturbergi, Sigrún, Helga Jóhannesdóttir, Sigrún Björg, Agnes, Gunsó, Siggi, Gummi, Selma Sif, Friðsemd, Steinn og öll þau sem studdu okkur nafnlaust!

Brunnurinn vígður!

Vatnsbrunnurinn er tilbúinn og kominn í gagnið! Við þökkum Utanríkisráðuneyti Íslands kærlega fyrir styrkinn. Frábært að stelpurnar okkar hafi núna greiðan aðgang að vatni! Agnes Hauksdóttir og Kristrún Friðsemd Sveinsdóttir stjórnarmeðlimir voru í Úganda fyrir stuttu, heimsóttu þá skólann og var brunnurinn vígður við litla athöfn en hér má sjá nokkrar myndir frá heimsókninni.

Ljósmyndir: Muyingo SiRaj

Sigrún vinnur sjálfboðaliðastarf

Í lok mars hélt Sigrún Elfa Snæbjörnsdóttir til Úganda sem sjálfboðaliði í CLF skólanum. Sigrún var með námskeið í tölvunotkun fyrir stelpurnar í skólanum þar sem þær lærðu grunn atriði í word, settu upp tölvupóstfang og lærðu að senda tölvupóst og fleira sem kemur þeim vel í atvinnuleit í framtíðinni. Við þökkum Sigrúnu fyrir frábært starf í skólanum síðustu vikur!