Vatn eru mannréttindi

Alþjóðlegi vatnsdagurinn er í dag en á þessum degi er athygli vakin á þeim gífurlega fjölda fólks sem ekki hefur aðgang að hreinu neysluvatni. Í dag hafa 2,2 milljarðar manns ekki aðgang að hreinu og öruggu vatni, sem er mikið áhyggjuefni enda lágmarks mannréttindi og lífsnauðsynlegt.

Við hjá CLF vorum svo heppin að hljóta styrk frá Utanríkisráðuneyti Íslands árið 2017 til þess að grafa fyrir brunni og hefur hann, síðan þá, auðveldað nemendum, starfsfólki og nágrönnum lífið töluvert. Hreint og öruggt vatn fæst nú á skólalóðinni en áður þurfti að ganga langa vegalengd daglega til að sækja vatn. Við skulum ekki taka vatni sem sjálfsögðum hlut, hvorki í dag né aðra daga.

Alþjóðlegur baráttudagur kvenna 2021

8. mars var alþjóðlegur baráttudagur kvenna. Að því tilefni sem og tilslökunum á Covid takmörkum þá slógum við upp smá veislu við skólann! Þetta hafa svo sannarlega verið krefjandi mánuðir og það er gott að líta fram á við til bjartari tíma. CLF bauð stelpum úr 6 nágrannaskólum á viðburðinn en það eru þeir skólar sem taka þátt í tíðarheilsuverkefninu okkar styrkt af Rótarý. Hver stúlka sem kom á viðburðinn fékk pakka með tveimur margnota dömubindum auk þess að allir gestirnir fengu fjölnota grímu saumaða af stúlkunum í verkmenntaskóla CLF. Boðið var uppá fræðslu um blæðingar og hvernig eigi að nota bindin sem þær fengu að gjöf, og stúlkurnar fengu tækifæri á að deila sinni reynslu. Heiðursgestur var Mary Namuli frá skólayfirvöldum Mukono héraðs. Þetta var frábær dagur í alla staði.

„There are two powers in the world: one is the sword and the other is the pen. There is a third power stronger than both, that of women.“ -Malala Yousafzai

CLF Úganda fær styrk frá Rótarý og kanadíska ríkinu

Frábærar fréttir inn í helgina! CLF í Úganda hefur hlotið styrk frá Rotary International, ýmsum Rótarý klúbbum í Kanada og kanadíska ríkinu til þess að fara af stað með tíðarheilsuverkefni í samstarfi við Rótarý. Stelpurnar okkar munu læra að sauma sín eigin fjölnota bindi sem verða einnig seld á viðráðanlegu verði í nærliggjandi skólum. Einnig fá þær blæðingafræðslu sem þær munu koma áfram til nemenda hinna skólanna. Slagorð verkefnisins er „Girls helping girls stay in school“ og er markmiðið að takast á við þann vanda sem blæðingar skapa fyrir skólastelpur sem ekki hafa aðgengi að túrvörum og fræðslu um hvernig eigi að takast á við þær. Stúlkur í Úganda flosna jafnvel úr námi vegna þessa og því er þetta mjög svo mikilvægt verkefni. Við erum ekkert smá ánægð og þakklát fyrir þetta frábæra framtak og hlökkum til að segja ykkur betur frá!

Fjölnota grímur

Við vorum að fá sendingu af einstaklega fallegum fjölnota grímum sem eru saumaðar af stúlkunum í verkmenntaskóla Candle Light í Úganda. Grímurnar eru þriggja laga og koma í nokkrum mismunandi litum. Þið getið skoðað úrvalið og pantað grímurnar hér: https://clf.is/voruflokkur/studningur/

Það er frí heimsending á grímunum en við hvetjum ykkur til þess að vera tímanlega að panta þar sem sendingin getur tekið aðeins lengri tíma en vanalega með póstinum núna í desember.

Við munum svo vonandi geta bætt við vöruúrvalið hér í vefversluninni okkar á næstunni en þar sem það verða líklegast engir jólamarkaðir þetta árið mun öll sala á vörunum okkar fara fram á netinu. Við viljum líka þakka ykkur öllum kærlega fyrir stuðninginn á árinu en við höfum með ykkar aðstoð náð að styðja vel við nemendur og kennara í gegnum þessa erfiðu og fordæmalausu tíma.

Jólamarkaður CLF í Kolaportinu

Verið velkomin á Jólamarkað CLF á Íslandi en við verðum í Kolaportinu helgina 15. og 16. desember með fallegt úganskt handverk til styrktar félaginu. Það sem er til sölu eru meðal annars fallegar og litríkar töskur, svuntur, salatskeiðar, hitaplattar, skartgripir og gjafabréf (gjafir sem gefa), en allur ágóði rennur óskiptur til rekstrar verkmenntaskóla CLF fyrir bágstaddar stúlkur í Úganda. Tilvaldar gjafir í jólapakkann, sem bæði gleðja og styðja gott málefni.

Finna má viðburðinn hér á Facebook.

 

Alþjóðlegur dagur sjálfboðaliða

Í dag, 5. desember, er alþjóðlegur dagur sjálfboðaliða. Þess má geta að allt starf CLF á Íslandi er unnið í sjálfboðavinnu af fólki sem á það sameiginlegt að hafa brennandi áhuga á jafnréttismálum, þróunarmálum og menntamálum, eða öllu því sem CLF stendur fyrir.

CLF í Úganda fær einnig reglulega til sín sjálfboðaliða frá Íslandi sem unnið hafa frábært starf í þágu skólans. Vilt þú gerast sjálfboðaliði, láta gott af þér leiða og öðlast dýrmæta reynslu? Þá máttu endilega senda okkur póst á clf@clf.is.

Kynheilsa og álfabikar

Samtökin WoMena, sem sérhæfa sig í kynheilsu kvenna sérstaklega í tengslum við blæðingar, heimsóttu skólann okkar í annað sinn í vikunni. Var bæði nemendum og konum í nágrenninu boðin fræðsla. Í þetta sinn komu WoMena færandi hendi með álfabikar handa þátttakendum sem munu að öllum líkindum nýtast þeim í 10 ár, en álfabikarinn er margnota bikar úr sílíkoni sem tekur tíðarblóði og er notaður í stað dömubinda og tappa. Það er munur að þurfa ekki að hafa áhyggjur af tíma mánaðarins næstu 10 árin! Takk WoMena fyrir allt, og takk sendiráð Íslands í Kampala fyrir stuðninginn.

Takk fyrir stuðninginn!

Við viljum þakka ykkur öllum kærlega fyrir stuðninginn í Reykjavíkurmaraþoninu, hann var ómetanlegur! Sérstakar þakkir til þeirra sem hlupu fyrir samtökin en það voru Tómas Ingi Adolfsson, Renata Sigurbergsdóttir, Ásrún Birgisdóttir, Þorbjörg Halldórsdóttir, Ármann Halldórsson, Halldóra Hrólfsdóttir og Margrét Geirsdóttir. Án ykkar hefði áheitasöfnunin ekki heppnast eins vel og hún gerði en það söfnuðust 326.500 kr! Öll áheitin munu öll renna óskipt til reksturs verkmenntaskólans í Úganda en við munum að sjálfsögðu leyfa ykkur að fylgjast áfram með starfi verkmenntaskólans hér á heimasíðunni, á Instagram og á Facebook.

Takk enn og aftur fyrir stuðninginn, þið eruð frábær.

Menntun stúlkna vinnur gegn barnahjónaböndum

Friðsemd, formaður CLF á Íslandi, og Tómas, gjaldkeri og varaformaður, skrifuðu grein um fjölbreytt gildi menntunarinnar sem verkmenntaskóli CLF veitir:

„Að útvega stúlkum þekk­ingu og skapa þeim færni sem nýt­ist þeim í líf­inu er eitt það helsta sem hægt er að gera til þess að draga úr líkum á því að þær gift­ist ung­ar. Með því að sýna fram á gildi mennt­unar má svo smám saman breyta þeim við­horfum sem oft eru ríkj­andi gagn­vart menntun stúlkna.“

Greinina má lesa í heild sinni hér.

Tómas reimar á sig hlaupaskóna

Tómas, gjaldkeri og varaformaður CLF á Íslandi, hleypur að sjálfsögðu fyrir okkur í Reykjavíkurmaraþoninu líkt og kemur fram á Vísi: ,,Við ætlum okkur að efla starfsemi skólans enn frekar og fá til dæmis fleiri góða kennara og bæta inn verkefnum, eins og fatasaum, hænsnarækt og kertagerð, en þau verkefni gera skólanum og nemendum hans kleift að selja afraksturinn og efla þar með sjálfstraust stúlknanna og bæta hag þeirra til framtíðar“

Hægt er að heita á hlauparana hér.