Starfið er liður í því að stuðla að auknu kynjajafnrétti í Úganda þar sem konur hafa staðið höllum fæti í samfélaginu miðað við karlmenn, sérstaklega þegar kemur að menntun. Konur í Úganda flosna oft ungar upp úr skóla af mismunandi völdum, til dæmis vegna fátæktar, foreldramissis, barneigna, óviðunandi aðstæðna í skólum fyrir ungar stúlkur, og ríkjandi viðhorfs um að menntun drengja sé mikilvægari en menntun stúlkna. Sú þekking og menntun sem þær öðlast í gegnum verkefnið mun hafa jákvæð áhrif á líf þeirra, atvinnumöguleika og fjölskyldur, sem og samfélagið í heild.